Innlent

Í hungurverkfalli í fimmtán daga

Helga Arnardóttir skrifar
Flóttamenn mótmæltu þegar lögreglan gerði húsleit í híbýlum þeirra fyrir ári síðan.
Flóttamenn mótmæltu þegar lögreglan gerði húsleit í híbýlum þeirra fyrir ári síðan.

Verulega er farið að draga af alsírskum flóttamanni sem hefur verið í hungurverkfalli í fimmtán daga, en mál hans hefur ekki verið tekið formlega fyrir í dómsmálaráðuneytinu. Maðurinn, sem dvelur á heimili fyrir hælisleitendur á Suðurnesjum, er orðinn máttfarinn vegna næringarskorts.

Eftir tveggja ára bið, var honum synjað um pólitískt hæli í mars síðastliðnum, sem hann hefur kært til dómsmálaráðuneytisins. Í fimmtán daga hefur hann einungis drukkið vatn og te í mótmælaskyni. Hann er orðinn máttfarinn af sveltinu, hefur horast töluvert og þjáist af næringarskorti.

Lögfræðingur Mansris hefur frest til 13.maí til að skila inn greinargerð og þá verður mál hans tekið fyrir í ráðuneytinu. Slík afgreiðsla gæti tekið nokkra mánuði. Hann sér ekki tilgang í að bíða eftir niðurstöðu.

Hann segist ekki geta snúið aftur til Alsír þar sem hann sé í hættu þar í landi. Hann segir engu breyta hvort hann deyi hér eða þar.

Félagsmálayfirvöld í Reykjanesbæ fylgjast grannt með líðan Mansris og líta málið alvarlegum augum þar sem hann hafnar allri læknissaðstoð. Hraki heilsu hans hins vegar verði gripið inn í.

Mansri hefur verið hvattur til að bíða lokaniðurstöðu þar sem mál hans hefur ekki verið formlega verið tekið fyrir.

Frá árinu 2003 hafa fjórir fengið pólitískt hæli og 21 fengið dvalarleyfi af mannúðarástæðum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×