Innlent

Háskólinn kennir fólki að stofna sprotafyrirtæki

Eitt af fjölmörgum námskeiðum sem Háskóli Íslands mun standa að í sumar er Nýsköpunar- og frumkvöðlafræði. Markmið með námskeiðinu er að kenna fólki að hrinda hugmyndum í framkvæmd þannig að úr geti orðið sprotafyrirtæki. Jóhann Pétur Malmquist, prófessor í tölvunarfræði við Háskóla Íslands, er umsjónarkennari námskeiðsins en hann hefur tekið þátt í að stofna á annan tug fyrirtækja.

Meðal fyrirlesara á námskeiðinu verða reyndir stjórnendur alþjóðlegra fyrirtækja en Jóhann hefur safnað saman hópi af reyndum sérfræðingum og kennurum á ýmsum sviðum til að einfalda ferlið frá hugmynd að veruleika. Jóhann Pétur segir að það sé ekkert mál að fá góðar hugmyndir. Flóknara sé að útfæra þær.

Í fréttatilkynningu frá Háskólanum segir að sum þeirra fyrirtækja sem Jóhann hafi komið á fót í félagi við aðra hafi gengið býsna vel. Hugvit hf. sé í þeim hópi sem þróai GoPro-lausnir fyrir Lotus Notes og Microsoft hugbúnaðarkerfi. GoPro-lausnir eru seldar um allan heim. Önnur sprotafyrirtæki sem Jóhann Pétur hafi komið að hafi t.d. þróað kennsluforrit til að bæta málþroska barna og gagnaveitu fyrir farsíma. „Þótt maður geti útfært hugmynd þá er spurning hvort maður geti selt hana; er maður með afurð sem markaðurinn vill? Svo er ekki víst að það dugi til að sprotafyrirtækið nái að ganga, þannig að þetta er mikið og erfitt ferli," segir Jóhann Pétur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×