Erlent

Bangladesh frestar kosningum

Hermenn voru kallaðir út í Bangladesh til þess að koma í veg fyrir mótmæli í landinu.
Hermenn voru kallaðir út í Bangladesh til þess að koma í veg fyrir mótmæli í landinu. MYND/AP

Yfirvöld í Bangladesh hafa frestað umdeildum kosningum sem áttu að fara fram þann 22. janúar næstkomandi þar sem forseti millibilsstjórnar landsins sagði af sér í dag. Ástæðan fyrir afsögn hans er talin vera mikil gagnrýni á hann fyrir að undirbúa kosningarnar ekki nógu vel en talið er að afsögn hans eigi eftir að draga úr óstöðugleika í landinu.

Talsmaður forsetans sagði að kosningunum yrði frestað um óákveðinn tíma þar sem flestir ráðgjafar forsetans hefðu einnig hætt störfum. Stjórnarandstöðuflokkar höfðu líka sagst ætla að sniðganga kosningarnar þar sem engin leið væri að tryggja að þær yrðu sanngjarnar.

Neyðarástandi var lýst yfir nokkrum klukkustundum áður en forsetinn sagði af sér og á meðan þau gilda er ólöglegt að gagnrýna stjórnvöld og aðgerðir þeirra. Sameinuðu þjóðirnar sögðu að þau hefðu fryst allar aðgerðir í Bangladesh vegna afsagnarinnar og grunsemda um að kosningarnar hefðu ekki orðið sanngjarnar. Almenningur í Bangladesh tók fréttunum ekki illa og sagði að þetta hefði verið skásti kosturinn í slæmri stöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×