Innlent

Stefnir í skólalokanir í Kópavogi á ný

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Búdda stúpa í Smárahverfinu í Kópavogi. 
Búdda stúpa í Smárahverfinu í Kópavogi.  Vísir/Vilhelm

Útlit er fyrir að einhverjum skólum í Kópavogi verði lokað í byrjun næsta mánaðar vegna verkfalls félagsmanna Eflingar sem starfa hjá nokkrum sveitarfélögum, verði verkfallsboðun samþykkt. Fundað verður í deilunni í dag.

Atkvæðagreiðsla um verkfallsboðun félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Kópavogsbæ, Hveragerðisbæ, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesbæ og sveitarfélaginu Ölfusi stendur nú yfir og lýkur á mánudag. Umræddir starfsmenn, sem eru á þriðja hundruð, fóru í verkfall fyrir páska en því var aflýst, einkum sökum faraldurs kórónuveiru.

Verkfallið nú myndi hefjast 5. maí næstkomandi, daginn eftir að skólahald á að hefjast að nýju með eðlilegum hætti eftir að reglur um samkomubann voru rýmkaðar. Á meðal þeirra sem færu í verkfall væru skólaliðar í Kópavogi - og því er útlit fyrir að skólum í bænum verði lokað.

Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar segir útlit fyrir að verkfallsboðunin verði samþykkt en þó hefur verið boðað til fundar hjá samninganefndum Eflingar og sveitarfélaganna í húsnæði ríkissáttasemjara klukkan þrjú í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×