Erlent

Bolsonaro rekur yfirmann lögreglunnar, dómsmálaráðherrann segir af sér

Kjartan Kjartansson skrifar
Samskipti Bolsonaro (t.v.) og Moro (t.h.) höfðu stirðnað undanfarið. Moro sagði af sér í dag vegna ákvörðunar forsetans um að reka yfirmann alríkislögreglunnar.
Samskipti Bolsonaro (t.v.) og Moro (t.h.) höfðu stirðnað undanfarið. Moro sagði af sér í dag vegna ákvörðunar forsetans um að reka yfirmann alríkislögreglunnar. Vísir/EPA

Sergio Moro, dómsmálaráðherra Brasilíu, sagði af sér í dag vegna ákvörðunar Jairs Bolsonaro forseta um að reka yfirmann alríkislögreglunnar. Bolsonaro hefur ekki gefið neina formlega skýringu á brottrekstrinum.

Tilkynnt var um brottrekstur Mauricio Valeixo, forstjóra alríkislögreglunnar í lögbirtingarblaði. Moro skipaði Valeixo og hótaði dómsmálaráðherrann að segja af sér nema hann fengi að velja eftirmann hans í embættið.

Reuters-fréttastofan segir óljóst hvers vegna Bolsonaro vildi ryðja Valeixo úr vegi. Forsetinn hefur verið áhugasamur um að stokka upp í yfirstjórn alríkislögreglunnar í Río de Janeiro þar sem hann var áður þingmaður. Valeixo og Moro hafa hins vegar verið á móti þeim sem Bolsonaro hefur nefnt til að taka við lögreglunni þar.

„Ég verð að standa vörð um ferilskrá mína og umframt allt þá skuldbindingu sem ég tók við...að við myndum standa einörð gegn spillingu, skipulagðri glæpastarfsemi og ofbeldisglæpum,“ sagði Moro á blaðmannafundi þar sem hann kynnti afsögn sína í dag, að sögn The Guardian.

Moro var áður þekktur dómari og hefur verið í fararbroddi í yfirlýstum tilraunum Bolsonaro til að taka á landlægri spillingu í Brasilíu. Bolsonaro bauð sig fram til forseta með loforði um að taka á spillingu og að rannsóknir á henni yrðu lausar undan pólitískum afskiptum. Brotthvarf Moro, sem hefur notið vinsælda almennings, er talið verða ríkisstjórn Bolsonaro mikil blóðtaka.

Dómsmálaráðherrann hefur ekki verið óumdeildur. Í fyrra skutu upp kollinum smáskilaboð sem gengu á milli Moro og saksóknara þegar hann var dómari í spillingarmáli gegn Luiz Inacio Lula da Silva, fyrrverandi forseta. Moro gaf þar saksóknurum ráð um hvernig þeir ættu að haga málatilbúnaði sínum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×