Erlent

Efnahagur heimsins í hættu

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að kjarnorkuárás hryðjuverkamanna á stórborg á vesturlöndum gæti lagt efnahag heimsbyggðarinnar í rúst. Á ráðstefnu um öryggismál sem nú er haldin í Þýskalandi hvatti hann Bandaríkin og Evrópu til þess að styrkja sameiginlegar varnir heimsins gegn hryðjuverkum. Á ráðstefnunni lagði Annan fram tillögu um úrbætur í öryggismálum sem hann sagði þær umfangsmestu í sextíu ára sögu samtakanna. Meðal annars eru lagðar til stórlega hertar reglur til þess að hindra frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna sem eru ekki góðar fréttir fyrir Íran og Norður-Kóreu. Megináherslan er þó barátta gegn hryðjuverkasamtökum sem Annan sagði vera skelfilega ógn við heimsbyggðina. „Ef New York, London, París eða Berlín yrði fyrir árás hryðjuverkamanna myndi hún ekki aðeins drepa hundruð þúsund á einu andartaki. Slík árás gæti einnig lagt efnahagslíf manna í rúst og steypt þannig milljónum manna í fátækt í þróunarlöndunum,“ sagði Annan  Joschka Fischer, utanríkisráðherra Þýskalands, studdi málflutning Annans og bað Bandaríkjamenn, sem voldugasta ríki heims, að hafa forystu í umbótum hjá Sameinuðu þjóðunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×