Körfubolti

Ægir: Markmiðið að vinna alla titla sem í boði eru

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ægir fagnar með félögum sínum í leikslok.
Ægir fagnar með félögum sínum í leikslok. vísir/daníel

Ægir Þór Steinarsson var valinn mikilvægasti leikmaður úrslitaleiks Geysisbikars karla þar sem Stjarnan vann 14 stiga sigur á Grindavík, 75-89. Ægir skoraði 19 stig og gaf 14 stoðsendingar.

Fyrri hálfleikurinn var jafn en í þeim seinni sigu Stjörnumenn fram úr.

„Við unnum þetta á breiddinni. Margir lögðu í púkkið, bæði í vörn og sókn. Ég held að það hafi komið sjá þreyta í þá þegar leið á leikinn og þeir settu ekki öll skotin niður sem þeir gerðu í fyrri hálfleik,“ sagði Ægir við Vísi eftir leik.

„Það gerði gæfumuninn og við fráköstuðum betur. Þetta var nokkuð svipaður leikur og í undanúrslitunum. Við héldum dampi og lönduðum svo sigrinum.“

Ægir segir að Grindvíkingar hafi verið erfiðir viðureignar í dag.

„Ég var drullusmeykur í sannleika sagt. Þeir eru hættulegir og maður veit aldrei hvað maður fær frá þeim. Þeir lúra bara og setja svo niður þrista,“ sagði Ægir.

Stjörnumenn hittu afar illa fyrir utan í fyrri hálfleik en skotin rötuðu rétta leið í þeim seinni.

„Það opnaðist fyrir þetta og við náðum sóknarfráköstum þótt við höfum klikkað á skotum. Við héldum dampi,“ sagði Ægir.

Stjarnan hefur orðið bikarmeistari tvö ár í röð og varð auk þess deildarmeistari í fyrra. Ægir vonast til að fleiri titlar komi í Garðabæinn í vetur.

„Heldur betur. Við ætlum að gera betur en í fyrra og auðvitað er markmiðið að vinna alla titla sem í boði eru,“ sagði Ægir að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×