Erlent

Boris Johnson snýr aftur á mánudag

Andri Eysteinsson skrifar
Johnson var lagður inn á gjörgæslu í þrjár nætur í byrjun mánaðar.
Johnson var lagður inn á gjörgæslu í þrjár nætur í byrjun mánaðar. Vísir/getty

Áætlað er að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, snúi aftur til starfa á mánudaginn næsta. Þetta kemur fram í frétt Reuters en haft er eftir talskonu Downingstrætis 10.

Johnson sem greindist með kórónuveiruna fyrr í mánuðinum var lagður inn á gjörgæsludeild vegna einkenna hans og dvaldi hann þar í þrjár nætur (6. til 9. apríl) áður en hann var útskrifaður.

Í fjarveru Johnson hefur utanríkisráðherrann Dominic Raab sinnt skyldum forsætisráðherra. Yfir tuttugu þúsund Bretar hafa látist af völdum veirunnar í faraldrinum og hefur gagnrýni á aðgerðir ríkisstjórnarinnar aukist til muna undanfarnar vikur.

Skortur á prófunum og hlífðarbúnaði hefur einna helst verið gagnrýndur og þá hafa verið uppi vangaveltur um hvernig Bretar muni slaka á takmörkunum án þess að faraldurinn nái aftur styrk sínum.

Deilt hefur verið um það á þingi hvernig slíkt fari fram, fjöldi þingmanna hefur lýst yfir vilja til þess að takmörkunum verði aflétt til þess að fá efnahagslíf Bretlands aftur af stað en spáð hefur verið að breska hagkerfið stefni nú í sína stærstu kreppu í yfir þrjú hundruð ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×