Ungt danskt-íslenskt par, sem er að hasla sér völl í minkarækt á bænum Héraðsdal 2 í Skagafirði, var heimsótt í þættinum „Um land allt", sem var á dagskrá Stöðvar 2 í kvöld. Hún er íslensk, Halla Ólafsdóttir frá Djúpavogi, en hann danskur, Jesper Bækgaard.
Þau eiga fimm mánaða gamlan son, Jens Ólaf, en þau kynntust fyrir fimm árum þegar bæði voru við háskólanám í Árósum, þó engu sem tengist loðdýrum, en kaupin á minkabúinu var þeirra leið til að flytjast til Íslands. Foreldrar Jespers höfðu rekið minkabú í Danmörku og það var bróðir Jespers, sem er loðdýraræktarráðunautur í Danmörku, sem átti hugmyndina snemma árs 2010 að kaupa íslenskt minkabú. Þau Halla og Jesper eiga fjórðung í búinu á móti fjölskyldu hans, þannig að hér er dæmi um erlenda fjárfestingu í íslenskum landbúnaði.
Fram kom í þættinum að þau þekktu nánast ekkert til Skagafjarðar, þegar þau fluttu þangað, en svo vel líkar þeim að þau segjast ekkert vera á förum aftur, og Jesper hefur gengið ótrúlega vel að læra íslenskuna, eins og heyra má í viðtölum í þættinum.
Fjallað var um loðdýraræktina á Íslandi í þættinum „Um land allt" í kvöld en þeir Kristján Már Unnarsson og Baldur Hrafnkell Jónsson kvikmyndatökumaður heimsóttu einnig minkabændur á Skörðugili og fóðurstöðina á Sauðárkróki, sem bændurnir segja að sé lykilþáttur í starfsemi búanna á Norðurlandi.
