Hvít-Rússarnir í FC Gomel tryggðu sér í kvöld leiki á móti Liverpool í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar þegar liðið sló út FK Renova frá Makedóníu. FC Gomel komst upp með það að tapa seinni leiknum á heimavelli og vann 2-1 samanlagt.
FC Gomel vann fyrri leikinn 2-0 í Makedóníu og var því í góðum málum fyrir leikinn í kvöld. Ersen Asani skoraði eina mark leiksins í kvöld á 56. mínútu en það nægði ekki liði FK Renova.
Fyrri leikur Liverpool og FC Gomel fer fram í Hvíta-Rússlandi 2. ágúst og seinni leikurinn verður síðan á Anfield 9. ágúst. Þetta verða tveir fyrstu alvöru leikir liðsins undir stjórn Brendan Rodgers.
FC Gomel endaði í 3. sæti í hvít-rússnesku deildinni á síðasta tímabili og hefur ekki orðið meistari síðan 2003. Liðið varð aftur á móti bikarmeistari á síðasta tímabili.
