Lífið

Þrjú miðaverð á tónleika Muse í sumar

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Tíu þúsund miðar verða í boði á tónleika Muse.
Tíu þúsund miðar verða í boði á tónleika Muse. Vísir/getty
Miðaverð á tónleika Muse, sem fram fara í Nýju Laugardalshöllinni 6. ágúst næstkomandi liggur nú fyrir. Miðaverð á A-svæði er 15.900 krónur og á B-svæði er miðaverðið 12.900 krónur.

Þá verður boðið upp á sérstaka VIP-pakka en einungis 300 slíkir miðar verða í boði. VIP-miðarnir kosta 24.900 krónur. „VIP-svæðið er í miðjum salnum, sem er besti staðurinn í húsinu og þar sem besta sándið er. Svæðið verður við hliðina á einum af útgöngunum, þannig að það verður búin til sérstök gangbraut fyrir fólkið á svæðinu,“ útskýrir Þorsteinn Stephensen sem stendur á bak við tónleikana.

Ýmis fríðindi fylgja VIP-miðunum. Þeir sem verða á VIP svæðinu fá til dæmis sérstakt bílastæði við húsið og þá verður sér útisvæði fyrir þá sem eiga slíkan miða. „Á VIP-svæðinu getur fólk fengið allar þær veitingar sem það getur í sig látið, borgara, pylsur, bjór, léttvín og allt sem þú vilt,“ bætir Þorsteinn við.

Matt Bellamy söngvari, gítarleikari og píanóleikari Muse í góðum gír.mynd/getty
Hann segir VIP-svæðið svokallaða vera nýjung í íslensku tónleikahaldi. „Við erum að prófa þetta í fyrsta skiptið, þetta hefur ekki verið gert þetta áður.“

Ekki liggur fyrir hvort eða hver sér um upphitun á tónleikunum. „Það verður eitt eða hugsanlega tvö upphitunarbönd en það liggur ekki alveg fyrir.“ Hljómsveitin Nothing But Thieves hefur verið að túra með Muse að undanförnu en eins og fyrr segir liggur ekki fyrir hvort sú sveit komi til landsins líka.

Húsið verður opnað klukkan 18.00 á tónleikadag. „Við ætlum að gera úr þessu stóran og skemmtilegan rokkdag.“

Tíu þúsund miðar verða í boði á tónleikana og miðasalan hefst næstkomandi þriðjudag klukkan 10.00 á tix.is. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×