Varað er við umferð Hreindýra á Austur- og Suðurlandi. Hreindýrahópar eru nú við veg í Hamarfirði og Álftafirði og einnig í Reyðarfirði. Vegfarendur eru beðnir að gæta varúðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.
Flughált er víða um landið og eru gangandi og akandi beðnir um að fara varlega.
Hálka er á Austurlandi en þó er flughálka á Hróarstunguvegi og Borgarfjarðarvegi en ófært er um Breiðdalsheiði og Öxi.
Hálkublettir eru á Sandskeiði og Hellisheiði og hálka er í Þrengslum. Flughált er í Grafningi og á Lyngdalsheiði en hálka er annars víðast hvar á Suðurlandi.
Á Vesturlandi er snjóþekja og snjókoma á Vatnaleið en hálka og hálkublettir á flestum öðrum leiðum. Á Snæfellsnesi er þungært á Fróðárheiði og flughált á Útnesvegi.
Á Vestfjörðum er einnig hálka víða, flughált er frá Skálmdal Í Brjánslæk.
Á Norðurlandi er hálka eða hálkublettir víðast hvar en flughált er þó á nokkrum stöðum eins og á Siglufjarðarvegi, í Svarfaðardal og á Ljósavatnsskarði. Einnig er flughált á fjallvegum á norðausturhorninu.
