Franski bankinn Socété Generale hagnaðist um 947 milljónir evra, jafnvirði 94 milljarða íslenskra króna, á síðasta ári þrátt fyrir að 4,9 milljarðar evra hafi verið strikaðar út úr bókum bankans vegna taps verðbréfamiðlarans fyrrverandi, Jeróme Kerviels. Þetta er engu að síður 82 prósenta samdráttur á milli ára.
Afkoma bankans, sem er annar stærsti banki Frakklands, var hins vegar neikvæður um 3,35 milljónir evra á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Það skýrist af afskriftum Kerviels, sem veðjaði á kolrangan hest í framvirkum afleiðuviðskiptum sínum á verðbréfamörkuðum. Kerviel veðjaði á að gengi vísitalna hækkaði þegar raunin varð önnur. Hann segir yfirmenn sína hafa vitað af gjörningum sínum en lokað augunum fyrir þeim þar sem þeir hafi fram til þessa skilað bankanum góðum hagnaði.