Lífið

Dr Spock tilbúnir að taka við af vöðvabúntunum

Óttar óttast ekki vöðvatröllin.
Óttar óttast ekki vöðvatröllin.
Liðsmenn Dr Spock eru sigurvissir fyrir úrslitakvöld forkeppni Eurovision á laugardaginn. „Við erum eiginlega komnir til Serbíu í huganum," segir Óttar Proppé, forsprakki sveitarinnar.

Hann segir sveitina finna fyrir miklum meðbyr í Austur-Evrópu, og það sé allt hreinlega að verða vitlaust í Serbíu. Ástæðan mun vera sú að kvisast hefur út að þeir hyggist flytja lag sitt, „Hvar ertu nú?" á serbnesku hljóti þeir náð fyrir augum þjóðarinnar og komist í Eurovision. Lagið mun þá nefnast „Gde si ti sad" og fjalla um raunir serbneska sjómannsins, í stað þess íslenska.

Spock-liðar hallast raunar að því að flytja lagið á serbnesku á úrslitakvöldinu á laugardag, en ætla þó að bíða með þá ákvörðun þangað til í kvöld, þegar þeir taka æfingu á sviðinu í Vetrargarðinum. „Við ætlum að tékka á því hvort þetta skili sér ekki rétt í gegnum íslenskar græjur," segir Óttar.

Aðspurður hvort þeir óttist ekki samkeppnina frá vöðvatröllunum í Merzedes Club segir Óttar svo ekki vera. „Við erum með að minnsta kosti einn stóran meðlim, það er ákveðin vörn í honum," segir Óttar. Hann bætir við að þar að Sjónvarpið áskilji sér rétt til að skipta um lög og flytjendur eftir hentugleika, og þeir Spock-menn hafi því æft hin lögin til vonar og vara. Þeir færu því létt með að flytja Hey Hey Hey We Say Ho Ho Ho í Serbíu verði til þeirra leitað.

Hafi einhver haldið að jafn karlmannlegt band og Dr-Spock óttaðist að verða „gay" kyntákn færu þeir til Serbíu er sá hinn sami á villigötum. Óttar segir þá hafa verið það lengi, og finnst það ekki tiltökumál. „Þetta er dálítið svipað og að vera á sjó, maður stígur ölduna." segir Óttar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×