Handbolti

Ómar frá í 2-3 mánuði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ómar hefur skorað 60 mörk í vetur, eða 6,0 mörk að meðaltali í leik.
Ómar hefur skorað 60 mörk í vetur, eða 6,0 mörk að meðaltali í leik. vísir/stefán
Ómar Ingi Magnússon, hægri skytta Vals, fór uppskurð á föstudaginn og verður frá keppni næstu 2-3 mánuðina. Þetta kemur fram á Facebook-síðu handknattleiksdeildar Vals.

Ómar, sem er á sínu öðru tímabili með Val, hefur glímt við beinhimnubólgu en hann var í eldlínunni með U-19 ára landsliðinu á HM í Rússlandi í sumar og hefur því litla hvíld fengið að undanförnu.

Ómar, sem er einn allra efnilegasti leikmaður landsins, er markahæstur Valsmanna á tímabilinu með 60 mörk í 10 leikjum.

Geir Guðmundsson, hin örvhenta skyttan í leikmannahópi Vals, er einnig á sjúkralistanum og því hefur Ólafur Stefánsson dregið skóna af hillunni en hann lék sinn fyrsta leik með Val í 19 ár þegar liðið vann þriggja marka sigur, 26-23, á Akureyri í gær.

Ólafur skoraði sex mörk í leiknum og sýndi að hann hefur engu gleymt.

Valur hefur unnið 10 af 11 fyrstu leikjum sínum á tímabilinu og situr á toppi Olís-deildarinnar með 20 stig, fjórum stigum meira en Íslandsmeistarar Hauka sem eiga reyndar leik til góða.

Næsti leikur Vals er einmitt gegn Haukum í Schenker-höllinni 13. nóvember næstkomandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×