Erlent

Veiran greindist í minkum í Hollandi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Minkurinn á myndinni tengist fréttinni ekki með beinum hætti.
Minkurinn á myndinni tengist fréttinni ekki með beinum hætti. Vísir/Getty

Kórónuveiran sem valdið getur Covid-19 hefur greinst í minkum á tveimur hollenskum minkabúum. Ekki er talið að dýr geti smitað mannfólk af veirunni.

Samkvæmt tilkynningu frá hollenskum stjórnvöldum eru búin tvö staðsett í bæjunum Gemert-Bakel og Laarbek, í suðurhluta Hollands. Þá segir að minkarnir sem smituðust hafi sýnt nokkur einkenni Covid-19, þar á meðal erfiðleika við öndun.

Þá hafa nokkrir starfsmenn búana greinst með Covid-19, og er gengið út frá því að þeir hafi smitað dýrin. Almenningi er ráðlagt að halda minnst 400 metra fjarlægð frá umræddum búum, eigi það leið fram hjá þeim.

Nokkur dæmi þess að dýr hafi greinst með veiruna. Í lok síðasta mánaðar greindist til að mynda belgískur köttur með veiruna, en hann er talinn hafa smitast af mönnum. Þannig er almennt gengið út frá því að dýr séu ekki verulegur hluti af smitkeðjunni. Líklegra sé að menn geti smitað dýr af veirunni, en ekki öfugt.

Þrátt fyrir þetta er búið að loka vegi sem liggur nálægt búunum, til þess að gæta ýtrasta öryggis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×