Aðgerðir Strætó hófust í síðustu viku eftir að karlmaður, sem var að koma með flugi frá Varsjá í Póllandi til Íslands, var stöðvaður í tollinum með fimmtíu fölsuð strætókort í fórum sínum. Tveir hafa verið gripnir síðan þá.
„Við erum búin að góma tvo en við komumst ekki að þessu fyrr en í síðustu viku þegar lögreglan stoppaði þennan aðila í flugstöðinni. Við vissum því ekkert hvernig þetta leit út fyrr en þá, og erum nýbyrjuð í þessum aðgerðum,“ segir Jóhannes.

Aðspurður segir Jóhannes falsanir ekki óalgengar. Félagið verði af tugum, jafnvel hundruðum milljóna króna vegna þeirra. „Það er rosalega erfitt að segja hvert umfangið er en það getur verið um 200 milljónir á ári. Við byggjum það á tölum sem koma að utan.“
Jóhannes kallar eftir viðurlögum vegna tíðra falsana. „Við höfum rætt það nokkrum sinnum þegar við höfum komið fyrir umhverfis- og samgöngunefnd, og reynt að koma á sama fyrirkomulagi og tíðkast erlendis, þar sem fólk er sektað fyrir að svindla sér inn í vagnana,“ segir hann. Núna hins vegar hafi félagið hug á að breyta greiðslufyrirkomulaginu til þess að sporna við slíkum brotum. „Við erum að undirbúa það að taka upp rafrænt greiðslukerfi og fá heimild til að bjóða það út á næsta ári,“ segir hann.
„Annars höfða ég bara til samvisku fólks um að skipta við rétta söluaðila og kaupa kort á réttu verði. Við byggjum á því að farþegar skili sínu því þannig getum við bætt leiðakerfi okkar.“