Erlent

NATO og Rússland að funda

Aðalritari NATO, Jaap de Hoop Scheffer, mun funda með forseta Rússlands, Vladimir Putin, og utanríkisráðherra landsins, Sergei Lavrov, á næstunni til þess að ræða eldflaugavarnarkerfið sem Bandaríkjamenn vilja koma upp í Austur-Evrópu. Samskipti NATO og Rússa hafa ekki verið upp á sitt besta undanfarið og hafa Rússar hótað því að beina eldflaugum sínum að evrópskum skotmörkum ef eldflaugakerfið verður reist.

Sem málamiðlun í deilunni um kerfið buðu Rússar Bandaríkjamönnum aðgang að upplýsingum úr ratsjárstöð þeirra í Aserbaídsjan. Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði þá líta á ratsjárstöðina sem viðbót við kerfið en ekki eitthvað sem kæmi í staðinn fyrir það.

Rússar hafa líka mótmælt fyrirhugaðri stækkun NATO til austurs. Þeim finnst að Vesturlönd séu þá komin óþægilega mikið inn á áhrifasvæði sitt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×