Viðskipti innlent

Úrvalsvísitalan fellur - átta mánuðir frá hæsta gildi

Sléttir átta mánuðir voru í gær síðan Úrvalsvísitalan fór í sitt hæsta gildi áður en hún tók að falla. Vísitalan stóð í 9.016 stigum 18. júlí í fyrra. Hún hefur fallið um 5,7 prósent í dag í mikilli lækkanahrinu og hefur því fallið um rúmlega 51 prósent síðan þá. Samkvæmt þessu þarf hún að hækka um 105 prósent eigi hún að ná sömu hæðum og fyrir átta mánuðum síðan.

Dagurinn hefur verið með þeim rauðari.

Gengi bréfa í FL Group hefur fallið um 13,3 prósent í Kauphöllinni í dag. Á eftir fylgir Exista, sem er niður um rétt rúm tólf prósent, og SPRON, sem hefur fallið um tæp tólf prósent. Þetta er mesta lækkun dagsins en bréf Existu og SPRON hafa ekki snert lægra gildi fram til þessa.

Gengi bréfa í Existu liggur í 8,88 krónum en SPRON í rúmum fjórum krónum.

Þá hefur gengið Kaupþings fallið um rúm sex prósent, Bakkavarar um 5,8 prósent og Landsbankans um fimm prósent.

Önnur félög hafa lækkað á bilinu 0,3 til 4,7 prósent. Minnst í hinum færeyska Eik banka.

Úrvalsvísitalan hefur fallið um 5,7 prósent það sem af er degi og stendur vísitalan í 4.393 stigum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×