Viðskipti innlent

Viðsnúningur á síðustu metrunum

Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta, hringir félagið inn á fyrsta viðskiptadegi félagsins í morgun.
Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta, hringir félagið inn á fyrsta viðskiptadegi félagsins í morgun. Mynd/Arnþór

Talsverður viðsnúningur varð á gengi hlutabréfa undir lok  viðskiptadagsins í Kauphöllinni í dag. Þegar verst lét hafði SPRON fallið um rúm fjórtán prósent og FL Group og Exista um tæp þrettán. Þá féll vísitalan mest um rúm 6,2 prósent í 4.366 stig. Þegar yfir lauk hækkaði vísitalan um 198 stig og endaði í 4.564 stigum. Fall hennar nemur engu að síður 2,02 prósentum yfir daginn.

Mest lækkaði gengi í FL Group, eða um 6,39 prósent, í SPRON um 6,05 prósent, í Teymi um 4,93 prósent, í Kaupþingi um 4,76 prósentum og 365 um 4,72 prósent. Önnur félög lækkuðu minna.

Þá féll gengi Skipta, móðurfélags Símans, um rúm þréttan prósent frá útboðsgengi á fyrsta viðskiptadegi með bréf í félaginu. Þegar verst lét hafði stóð gengi Skipta í 5,05 krónum á hlut og það því fallið um tæp 24 prósent.

Einungis stundarfjórðungur var liðinn frá því viðskipti með bréf félagsins hófust í morgun þar til þau voru stöðvuð um tíma en þá gerði Exista, stærsti hluthafi félagsins, valfrjálst yfirtökutilboð í það.

Hins vegar hækkaði gengi Eik banka um 3,88 prósent á sama tíma og er það mesta hækkun dagsins. Á eftir fylgdu Landsbankinn, sem hækkaði um 1,67 prósent, Bakkavör, sem fór upp um 1,31 prósent og Straumur, sem hækkaði um 0,09 prósent.

Sveiflurnar voru meiri en úti í hinum stóra heimi. Þannig lækkaði FTSE-vísitalan um rúmt prósentustig í Bretlandi, Dax-vísitalan í Þýskalandi um hálf prósentustig og Cac-40 vísitalan í Frakklandi um 0,58 prósent. Vísitölur í Bandaríkjunum hafa lækkað um svipaða prósentutölu.

Vísitölurnar ruku upp í gær um allt að fjögur prósent eftir snarpa stýrivaxtalækkun bandaríska seðlabankans. Úrvalsvísitalan hækkaði hins vegar rétt lítillega á sama tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×