Handbolti

Skoraði 44 mörk á aðeins sex dögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hanna Guðrún Stefánsdóttir var í miklu stuði með Haukum.
Hanna Guðrún Stefánsdóttir var í miklu stuði með Haukum. Mynd/Vilhelm

Hanna Guðrún Stefánsdóttir í kvennahandboltaliði Hauka var sjóðandi heit í síðustu viku en hún fór á kostum í þremur stórsigrum Haukaliðsins í N1 deild kvenna. Hanna endaði vikuna á því að skora 18 mörk í 30-22 sigri Hauka á Fylki á Ásvöllum á laugardaginn.

Hanna hafði skorað 13 mörk í sigrum á FH og Víkingi í vikunni og endaði því magnaða viku á því að gæla við tuttugu marka múrinn. Hún var því með 44 mörk í þremur leikjum á aðeins sex dögum eða 14,7 mörk að meðaltali í leik.

Hanna þurfti bara 57 skot til þess að skora mörkin 44 og var því með 75 prósent skotnýtingu í þessum þremur leikjum Haukaliðsins. Mótherjarnir þrír skoruðu líka aðeins þrettán mörkum fleira en hún í þessum þremur leikjum.

Hanna var búin að skora 45 mörk í fyrstu 6 leikjum tímabilsins sem gera 7,5 mörk að meðaltali í leik. Hún hefur eftir þessa viku skorað 89 mörk í 9 leikjum sem þýðir að hún er búin að hækka meðalskor sitt upp í 9,9 mörk að meðaltali í leik.

Mögnuð vika hjá Hönnu Guðrúnu Stefánsdóttur:

Sunnudagur 22. nóvember, Ásvellir

Haukar-FH 35-19

13 mörk úr 19 skotum

68 prósent skotnýting

Miðvikudagur 25. nóvember, Víkin

Víkingur-Haukar 16-40

13 mörk úr 14 skotum

93 prósent skotnýting

Laugardagur 28. nóvember, Ásvellir

Haukar-Fylkir 30-22

18 mörk úr 26 skotum

69 prósent skotnýting

Samantekt:

3 leikir, 3 sigrar

44 mörk úr 59 skotum

Mótherjar Hauka skoruðu samanlagt 57 mörk

75 prósent skotnýting










Fleiri fréttir

Sjá meira


×