Sport

Sara er enn með forystu á Tiu á peningalistanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir hefur átt frábært tímabil og það sést á verðlaunafénu.
Sara Sigmundsdóttir hefur átt frábært tímabil og það sést á verðlaunafénu. Mynd/Instagram/sarasigmunds

Íslenska CrossFit konan Sara Sigmundsdóttir hefur unnið sér inn mestan pening til þessa á keppnistímabilinu af öllu CrossFit fólki heimsins. Skiptir þar engu hvort um er að ræða karla eða konur.

Sara varð að sætta sig við annað sætið á eftir Ástralanum Tiu-Clair Toomey á Wodapalooza CrossFit-mótinu í Miami sem lauk um síðustu helgi. Sigur Tiu-Clair Toomey á Wodapalooza dugði henni þó ekki til að komast á toppinn á peningalistanum.

Sara situr þar áfram í efsta sætið og er líka búin að vinna sér meira en hæsti karlinn sem er Patrick Vellner.

Sara hefur þegar unnið sér inn rétt rúmlega 119 þúsund Bandaríkjadali á tímabilinu eða um 15,3 milljónir íslenskra króna.

Hún hefur tæplega fjórtán þúsund dala forskot á Patrick Vellner, efsta karlinn, og hefur síðan unnið sér tæplega 46 þúsund dölum meira en næstefsta konan sem er umrædd Tia-Clair Toomey.

Björgvin Karl Guðmundsson er eini annar Íslendingurinn sem kemst inn á topp tíu listana en hann er í tíunda sætinu hjá körlunum með verðlaunafé upp á 12 þúsund og fimm hundruð Bandaríkjadali.

Sara getur vonandi bætt við þessa upphæð á þessu tímabili en næst á dagskrá hjá henni er Rogue Invitational CrossFit mótið þar sem sigurvegarinn fær 50 þúsund dali.

Hér fyrir má sjá báða topp tíu listana í samantekt Morning Chalk Up.








Tengdar fréttir

Sara eftir Wodapalooza: Veit nákvæmlega hvað ég þarf að gera núna

Íslenska CrossFit konan Sara Sigmundsdóttir þurfti að sætta sig við annað sætið á eftir heimsmeistaranum Tiu-Clair Toomey á Wodapalooza CrossFit mótinu um helgina en það virðist hafa aðeins verið bensín á tankinn að tapa fyrir Ástralanum öfluga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×