Innlent

Enginn með kórónuveiruna í öndunarvél í fyrsta sinn í fimm vikur

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Martin Ingi Sigurðsson, yfirlæknir í svæfinga- og gjörgæslulækningum, við bráðamóttökuna í Fossvogi.
Martin Ingi Sigurðsson, yfirlæknir í svæfinga- og gjörgæslulækningum, við bráðamóttökuna í Fossvogi. vísir/egill

Enginn sem smitast hefur af kórónuveirunni styðst nú við öndunarvél. Það hefur ekki gerst í rúmar fimm vikur, eða frá því að fyrsti kórónuveirusmitaði einstaklingurinn var tengdur við slíkan búnað.

Martin Ingi Sigurðsson, yfirlæknir í svæfinga- og gjörgæslulækningum, segir að þau gleðitíðindi hafi borist af gjörgæslunni í Fossvogi að síðasti sjúklingurinn, sem var í öndunarvél vegna covid 19-sjúkdóms, hafi losnað úr vélinni í morgun.

Um töluverðan viðsnúning sé að ræða frá því þegar staðan var hvað alvarlegust. Þá hafi 16 einstaklingar í Reykjavík og á Akureyri verið meðhöndlaðir í öndunarvél á sama tíma vegna covid-sjúkdóms. Þrír þeirra létust en hin þrettán komust úr öndunarvélameðferð.

Alls voru 13 einstaklingar innlagðir á sjúkrahús vegna veirunnar í gær, en von er á nýjum tölum um stöðu faraldursins núna klukkan 13. Virk smit voru 174 talsins og hafði fækkað um rúmlega 300 á tíu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×