Innlent

Jarðskjálftahrina nærri Eldey

Oddur Ástráðsson skrifar

Vel á annað hundrað nokkuð snarpra jarðskjálfta mældust nærri Eldey á Reykjaneshrygg í nótt og í morgun. Skjálftahrinunni er lokið en hún stóð óvenju lengi.

Upptök skjálftanna voru um 35 kílómetra suðvestur af Reykjanesvita, nánar tiltekið við Geirfugladranga sem er nærri Eldey. Stærstu skjálftarnir mældust nærri fjórum á Richter og fjölmargir á milli þrír og þrír og hálfur á ricther.

Að sögn Matthew J. Roberts jarðskjálftafræðings hjá Veðurstofu Íslands virðist nú sem hrinunni hafi slotað um hálf tíu leytið í morgun en þá höfðu mælst um 150 skjálftar síðan hrinan hófst um hálf tíu í gærkvöldi.

Matthew segir að skjálftar séu algengir á þessum slóðum en hinsvegar sé óvenjulegra að hrinur sem þessar standi svona lengi. Hann segir ekkert benda til þess að búast megi við meiri virkni, hvað þá eldgosum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×