Innlent

Hjólhýsin tókust á loft

MYND/Magnús J.

Tvö hjólhýsi tókust á loft í miklu hvassviðri sem gekk yfir Seyðisfjörð í morgun. Hjólhýsin voru í geymslu innan tollgirðingarinnar við Strandabakka þegar sterk vindhviða varð til þess að þau fuku á aðra hliðina. Hjólhýsin voru mannlaus og því sakaði engan við óhappið.

Þá hefur ferjan Norræna, sem kom til Seyðisfjarðar í morgun, ekki getað lagt að bryggju vegna veðurofsans. Hún liggur nú austan við Brimnesið og bíður þess að veðrið gangi niður.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Seyðisfirði fór vindhraði allt upp í 21 metra á sekúndu á Fjarðarheiði í morgun en veðrið er nú þegar byrjað að ganga niður.

Vonast er til þess að Norræna komist að bryggju fljótlega eftir hádegi.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×