Innlent

Boðar ekki til útgjaldaveislu

Ekkert stopp og engar handbremsur í atvinnu- og efnahagsmálum, segja framsóknarmenn sem kynntu í dag stefnuskrá sína fyrir komandi þingkosningar. Flokkurinn leggur áherslu á velferðarmál en segist ekki boða til útgjaldaveislu með stefnumálum sínum.

12 mánaða fæðingarorlof, gjaldfrjáls leikskóli og lækkun virðisaukaskatts á lyfjum og barnavörum niður í sjö prósent er meðal þess sem Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á fyrir næsta kjörtímabil. Flokkurinn vill enn fremur hækka frítekjumark hjá lífeyrisþegum og að einbýli víki fyrir fjölbýlum á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Flokkurinn leggur einnig áherslu á að efla nýsköpun og háskólanám í landinu öllu og sömuleiðis á greiðari samgöngur í landinu.

Fram kom í máli formannsins Jóns Sigurðssonar að til þess að standa undir þessum vaxandi framlögum til velferðar-, mennta- og samgöngumála þyrfti að byggja upp sterkt atvinnu- og efnahagslíf áfram. Það yrði ekki gert með því að stöðva iðnþróun. Finna yrði jafnvægi stóriðju og nýsköpunar.

Framsóknarmenn telja að ef öll helstu stefnumál þeirra komi til framkvæmda á næsta kjörtímabili kosti það á annan tug milljarða. Formaðurinn segir ekki um útgjaldaveislu að ræða.

Í sama streng tekur Siv Friðleifsdóttir sem gagnrýnir óraunhæfar hugmyndir um skattleysismörk og lágmarksbætur hjá öðrum flokkum.

Viðtölin við Jón Sigurðsson og Siv Friðleifsdóttur í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×