Tónlist

Sumarsmellur frá Þorvaldi

Leikaranum Þorvaldi Davíð Kristjánssyni er margt til lista lagt en hann gefur nú út lagið Án minna vængja sem hann segir óð til heimalandsins. Fréttablaðið/pjetur
Leikaranum Þorvaldi Davíð Kristjánssyni er margt til lista lagt en hann gefur nú út lagið Án minna vængja sem hann segir óð til heimalandsins. Fréttablaðið/pjetur
„Ég er svona skúffuskáld og lít fyrst og fremst á tónlistina sem skemmtilegt áhugamál," segir leikarinn Þorvaldur Davíð Kristjánsson sem nýverið gaf út lagið Án minna vængja.

Þorvaldur samdi lagið í fyrra ásamt skólabróður sínum í Julliard, Cameron Scoggins en tók það upp er hann kom til landsins fyrir tíu dögum síðan. Þorvaldur segir lagið vera einskonar óð til Íslands og ástarinnar en lagið fer í spilun á næstu dögum.

„Maður kemst ekki hjá því að fjalla um ástina í svona lögum. Ég er duglegur að semja og með fulla skúffu af góðgæti. Svo hef ég þann sið á að taka fram eitt og eitt lag þegar ég kem til landins og fer í Stúdíó Ljónshjarta hjá vini mínum, Valda í Jeff Who," segir Þorvaldur en upptökum á laginu stjórnaði hinn ungi og efnilegi Þórður Gunnar.

Þorvaldur ætlar að dvelja hér á landi fram í ágúst ásamt unnustu sinni, Hrafntinnu Karldóttur. Hann segir planið vera að njóta þess að ferðast um landið ásamt því að sinna ýmsum verkefnum. Hann leikur eitt aðalhlutverkanna í væntanlegri mynd Baldvins Z, Vonarstræti, ásamt þeim Heru Hilmarsdóttur og Þorsteini Bachman. „Fyrsti samlestur var í vikunni og mér er mjög spenntur fyrir þessu verkefni," segir Þorvaldur en tökur hefjast með haustinu. Síðast sáu landsmenn Þorvald á hvíta tjaldinu sem Stebba sækó í Svörtum á leik en hann fullyrðir að Stebbi og karakterinn sem hann leikur í Vonarstræti eigi lítið annað sameiginlegt en það að vera íslenskir. „Án þess að gefa of mikið uppi þá eru þeir andstæður en Vonarstræti er svona dramamynd þar sem líf þriggja einstaklinga fléttast saman," segir Þorvaldur sem stefnir aftur út til Los Angeles í lok sumars. Hægt er að nálgast Á minna vængja á Tónlist.is og á Youtube. -áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×