Innlent

Kári segir Bretum að veiran hafi „mjög snemma“ verið útbreidd þar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kári Stefánsson á fundinum í dag.
Kári Stefánsson á fundinum í dag. Vísir/Vilhelm

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir í viðtali við breska fjölmiðilinn Sky News að miðað við þau gögn sem liggi fyrir sé ljóst að kórónuveiran hafi verið útbreidd í Bretlandi mjög snemma í faraldrinum sem henni hefur fylgt.

Kári settist niður með fréttamanni Sky í höfuðstöðvum Íslenskrar erfðagreiningar, en Sky News hefur á undanförnum dögum fjallað ítarlega um viðbrögð Íslands við kórónuveirunni.

Í viðtalinu lýsir Kári því sem komið hefur fram í vísindagrein vísindamanna Íslenskrar erfðagreiningar og íslenskra heilbrigðisstarfsmanna um að á meðan yfirvöld hafi haft augun á skíðasvæðum í Austurríki og Ítalíu, hafi veiran laumað sér hingað frá ýmsum löndum.

„Þar höfum við helst tekið eftir Bretlandi. Þannig að það er útlit fyrir að veiran hafi verið tiltölulega útbreidd í Bretlandi mjög, mjög snemma í þessum faraldri,“ segir Kári en vísindamenn geta fengið mjög góðar vísbendingar um uppruna hverrar veiru með því að skoða stökkbreytingar hennar.

Kórónuveiran hefur farið illa með Bretland en þar hafa nú 21 þúsund látist af völdum hennar, samkvæmt opinberum tölum. Breskir fjölmiðlar hafa þó dregið þessa tölu í efa og fjallað um að hún gæti verið allt að tvöfalt hærri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×