Innlent

Einn látinn og annar á gjörgæslu

Pólskur karlmaður að nafni Lukas Zewicz Rafal Maciej lést þegar jeppabifreið fór út af þjóðvegi eitt við bæinn Brekku í Skagafirði skömmu fyrir klukkan hálf ellefu á sunnudagskvöldið. Lukas var 34 ára, fæddur 4. maí árið 1970. Fernt var í bílnum. 51 árs gamall maður slasaðist alvarlega og liggur á gjörgæsludeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, en maður og kona, bæði þrítug sluppu minna meidd. Að sögn vakthafandi læknis á gjörgæsludeild er maðurinn sem slasaðist mest úr lífshættu en verður þó um sinn á gjörgæsludeild, en fólkið sem minna slasaðist voru lögð inn til eftirlits, en verða að öllum líkindum útskrifuð í dag. Flughált var við Brekku, sem er skammt fyrir ofan Varmahlíð, þegar slysið varð. Fólkið sem slasaðist var allt flutt á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Að sögn lögreglunnar á Sauðárkróki er fólkið sem í slysinu lenti pólskt kvikmyndagerðarfólk sem vann að gerð heimildarkvikmyndar um Ísland. Tveir jeppar kvikmyndagerðarfólks voru í samfloti. Bíllinn sem valt er af gerðinni Nissan Terrano og sagði lögregla hann vera bílaleigubíl á sumardekkjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×