Fótbolti

Hlátur í stað kynlífs í Kabardinka

Kolbeinn Tumi Daðason í Kabardinka skrifar
Bergur Beggi, Jóhann Alfreð og Dóri DNA skemmtu fjölmiðlamönnum þegar þeir voru búnir að kitla hláturtaugar landsliðsmannanna.
Bergur Beggi, Jóhann Alfreð og Dóri DNA skemmtu fjölmiðlamönnum þegar þeir voru búnir að kitla hláturtaugar landsliðsmannanna. Vísir/Vilhelm
Grínistarnir í Mið-Íslandi mættu óvænt á fimm stjörnu hótel strákanna okkar við Svartahaf í gærkvkvöld og fengu þá til að skella upp úr og gleyma stað og stund. Bergur Ebbi, Dóri DNA, Jóhann Alfreð og Björn Bragi þurftu að leyna plönum sínum fyrir öllum í nokkrar vikur. En vel þess virði að þeirra sögn.

„Þetta var ótrúlega skemmtilegt vekrefni og við höfum hlakkað mikið til að gera þetta. Þetta var algjört leyndamál og máttum ekki segja neinum frá þessu, hvorki fjölskyldu né vinum. Það var mikil leynd og mikil eftirvænting fyrir okkur. Uppistandið áðan var ótrúlega skemmtilegt og gaman að hitta strákana,“ segir Björn Bragi.

Bergur Ebbi fagnar þessu framtaki KSÍ og Vodafone sem Bergur segir að hafi fjármagnað ferð fjórmenninganna.

„Það er svolítið skemmtilegt að KSÍ kynnti þetta fyrir okkur að þetta væri eins og þegar skemmtikraftarnir fara þangað sem Bandaríkjamenn eru í stríði,“ segir Bergur Ebbi. Hugmyndin hafi komið eftir að starfsmaður KSÍ horfði á stríðsmyndina Platoon með þeim Tom Berenger, Charlie Sheen og  Willem Dafoe í aðalhlutverkum í leikstjórn Oliver Stone.

Heimir Hallgrímsson hafði gaman af uppistandi strákanna, heyrði stóran hluta af því tvisvar því hann var bæði á uppstandinu hjá landsliðinu og líka hjá fjölmiðlunum.Vísir/Vilhelm

Gæjar með vélbyssur pössuðu grínistana

Í myndum á borð við Platoon má sjá bandaríska hermenn sem hafa verið lengi á vígstöðvunum. Svo er poppstjörnum flogið inn í þyrlu og allt verður vitlaust. Eitt kvöld til að gleyma stund og stað. Hafa gaman, eins og í kvöld.

„Það gíraði okkur upp. Þetta var svolítið þannig. Eins og þið vitið þá er mjög mikil öryggisgæsla í kringum liðið. Við vorum hálfpartinn á hervarðstöð að bíða eftir að fá að fara á hótelið. Vanalega er maður smá stressaður fyrir gigg, fer að pissa og fá sér vatnssopa, koma sér í gírinn. Þarna átti það sér stað inni á einhverju hermannavarðstöðvarklósetti,“ segir Bergur Ebbi og hlær.

„No joke, við vorum í einhverri skemmu með gæjum með vélbyssur. Við fengum að pissa, það voru einhverjir beddar á gólfinu,“ segir Björn Bragi.  

Björn Bragi gerði grín að Hannesi vini sínum á uppstandinu hjá landsliðinu.Vísir/Vilhelm

Skutu á Heimi landsliðsþjálfara

„Þetta var eins og í Call of Duty,“ skater Bergur Ebbi inn í. Greinilegt að upplifunin var mikil fyrir þá sem voru þó þreyttir eftir ferðadaginn.

Björn Bragi segir að hótelið hafi sé mjög flott, stemmningin hafi verið mjög góð og strákarnir í góðu stuði. Allt vinalegt og mjög gaman, mikið hlegið

KSÍ bauð fjölmiðlamönnum í gærkvöld að hlusta á Mið-Ísland strákanna í tjaldi við æfingavöll þeirra. Þeir skutu nokkuð á Heimi þjálfara en gerðu þeir það líka fyrir framan landsliðið?

„Heldur betur og enn meira á strákana enda eru þetta menn sem eru með húmor fyrir sjálfum sér,“ segir Björn Bragi.

„Ég fæ einhvern rosalega skemmtilegt væb frá Heimi. Að hann sé mjög til í að hafa þetta á léttu nótunum en fókusa þegar þarf að fókusa. Nú erum við akkurat á milli leikja, og ég fann það að það mættu vera föst skot á hann,“ segir Bergur Ebbi.

Hannes Þór Halldórsson ver vítaspyrnuna frá Lionel Messi.Vísir/Vilhelm

Fengu miða á Argentínuleikinn

Björn Bragi og Hannes Þór Halldórsson eru góðir vinir. Sem kom sér ekki vel fyrir Hannes í kvöld sem fékk að heyra það frá Birni Braga.

„Heldur betur. Ég lét Hannes að sjálfsögðu heyra það. Sagðist hafa verið eini Íslendingurinn á vellinum sem vildi að Messi myndi skora. Þetta væri komið gott. Þessi öskubuskusaga væri komin alltof langt, mætti fara að henda,“ segir Björn Bragi í gríni.

„Það er svo geggjað að sjá árangurinn og landsliðið, að maður biður ekki um meira sem grínisti en að búa til grín og banter í þannig umhverfi.“

Ferð strákanna var plönuð fyrir þremur vikum. Einhverjir þeirra áttu ekki miða á Argentínuleikinn þannig að þegar það stóð til boða, að KSÍ gæti reddað miðum, þurftu þeir ekki að hugsa sig lengi um.

Strákarnir fá ekkert að hitta kærustur sínar og eiginkonur meðan á HM stendur, þ.e. fyrir utan faðmlag og koss í leikslok líkt og eftir Argentínuleikinn. Má þá segja að Mið-Ísland hafi komið í staðinn fyrir konurnar?

„Hlátur getur komið í staðinn fyrir kynlíf. Þetta var gott grín,“ segir Björn Bragi.

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á FacebookTwitter og Instagram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×