Landliðskonan Mariam Eradze hefur ákveðið að koma heim til Íslands og er búin að gera þriggja ára samning við Val í Olís deild kvenna í handbolta.
Mariam Eradze er fjölhæfur leikmaður sem hefur verið að banka á dyrnar hjá A-landsliðinu að undanförnu.
Mariam kemur frá franska liðinu Toulon Saint-Cyr en hún er 21 árs, fædd árið 1998. Mariam er dóttir Rolands Vals Eradze sem lék með Val á árunum 2000 til 2004.
Mariam fór ung út í atvinnumennsku en hún fór á sínum tíma frá Fram til As Cannes. Mariam hefur verið í yngri landsliðum Íslands undanfarin ár og var valin í A-landsliðið nú á dögunum. Hún á að baki 120 leiki í efstu deild í Frakklandi.
„Mariam er ung og mjög efnileg bæði í vörn og sókn. Hún getur leikið allar stöðurnar fyrir utan og sterk í vörn. Hún passar vel inn í okkar hóp og verður gaman að sjá hana í Valstreyjunni,“ sagði Ágúst Jóhannsson þegar hann var spurður út í nýja leikmanninn á fésbókarsíðu Vals.