Innlent

Efnasameind skyld karríkryddi hugsanlega lækning við Alzheimer

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Alzheimer.
Alzheimer.
Tilraunir með nýtt lyf við Alzheimer-sjúkdómnum fylla vísindamenn von um að geta stöðvað sjúkdóminn og bætt minni sjúklinga sem þjást af völdum hans.

Lyfið er í þróun hjá Salk-rannsóknarstofnuninni í Bandaríkjunum og hefur það þegar stöðvað framgöngu sjúkdómsins í músum. Ekkert lyf sem nú er á markaði hefur sömu virkni og þetta nýja lyf svo vitað sé. Pálmi V. Jónsson, yfirlæknir öldrunarlækninga á Landspítalanum segir rannsóknina mjög athyglisverða.

"Það er verið að horfa á efnasameind sem er afleidd af karríkryddi og hefur taugaverndandi og fjölþætt áhrif á miðtaugakerfið í rannsóknarmódelum. Þannig að hér er um að ræða algjörlega nýja nálgun varðandi Alzheimer-sjúkdóm," segir Pálmi.

Talið er að lyfið geti einnig nýst til að stöðva aðra aldurstengda taugahrörnunarsjúkdóma.

"Nálgunin er sú að horfa á verndun miðtaugakerfisins og örvun á nývexti. Hugmyndin er að varðveita taugasímana þar sem taugafrumurnar tala við hver aðra," bætir Pálmi við.

Raunar hefur lyfið einnig bætt minni þeirra músa sem ekki höfðu verið smitaðar af Alzheimer í þágu vísindanna. Stutt er í að leyfi fáist til að nota það á fólk í tilraunaskyni en óvíst er hvort það hefur sömu áhrif á fólk og það hefur á tilraunadýrin. Reynist lyfið vel telur Pálmi að það muni líða sjö til tíu ár þar til það fer í sölu en það væri stórt skref fyrir mannkynið.

"Það er verið að sýsla með meðul sem hugsanlega hafa væg áhrif á einkenni en ekkert sem breytir náttúrusögunni en það er það sem okkur vantar og þess vegna eru svona rannsóknir gríðarlega mikilvægar," segir Pálmi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×