Erlent

Talinn hafa skipulagt árásirnar

Yfirvöld í Afríkuríkinu Sambíu hafa handtekið mann sem er talinn hafa skipulagt árásirnar á London sem urðu fleiri en fimmtíu manns að bana. Hinn þrítugi Haroon Rashid Aswat er talinn hafa hringt minnst tuttugu sinnum í mennina fjóra sem drápu meira en fimmtíu manns í London, dagana áður en árásirnar voru gerðar. Vitað er að hann var í Leeds skömmu fyrir árásirnar þar sem þrír árásarmannanna bjuggu. Daginn sem árásirnar voru gerðar var Aswat í London en flúði þaðan aðeins örfáum klukkustundum áður en ódæðisverkin voru framin. Breskir öryggissveitarmenn hafa flogið til Sambíu til að yfirheyra manninn. Öryggisyfirvöld í Bretlandi gera hins vegar lítið úr málinu og segja það aðeins getgátur að Aswat sé í raun aðalmaðurinn á bak við árásirnar. Í nýrri skýrslu frá bresku leyniþjónustunni kemur fram að yfirgnæfandi líku séu á því að árásirnar tengist innrásinni í Írak. Þó að eflaust megi telja til fleiri orsakir fyrir árásunum sé stuðningur Breta við innrásina í Írak langstærsti einstaki þátturinn í árásunum. Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun telja meira en fjórir af hverjum fimm Bretum að árásirnar á London tengist stuðningi Breta við innrásina í Írak. Í skýrslu leyniþjónustunnar segir jafnframt að vitað sé til þess að bæði breskir og erlendir borgarar sem tengist Al-Qaida séu nú í Bretlandi. Í morgun var Edgeware Road lestarstöðin loksins opnuð, rúmum þrem vikum eftir að sprengja sprakk í lest sem fór þar í gegn. Réttarmeinafræðingar og lögreglumenn hafa skoðað hvern sentímetra á lestarstöðinni í þeirri von að finna sönnunargögn eða eitthvað sem geti varpað frekara ljósi á árásirnar. Á háannatíma í morgun voru aðeins örfáir vegfarendur á stangli á lestarstöðinni en fyrir árásirnar iðaði hún jafnan af lífi á þessum tíma dags.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×