Innlent

Landsmönnum heldur áfram að fjölga

Eiður Þór Árnason skrifar
Fleiri íslenskir ríkisborgarar fluttu til landsins en fluttu frá því á síðustu þremur mánuðum síðasta árs.
Fleiri íslenskir ríkisborgarar fluttu til landsins en fluttu frá því á síðustu þremur mánuðum síðasta árs.

364.260 manns bjuggu á Íslandi í lok ársins 2019 og fjölgaði landsmönnum um 1.400 á síðustu þremur mánuðum ársins. Þar af voru 186.960 karlar og 177.300 konur.

Á fjórða ársfjórðungi fæddust 1.120 börn og létust 610 einstaklingar. Á sama tíma fluttu 900 einstaklingar til landsins umfram brottflutta, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Þar af fluttu 50 fleiri með íslenskt ríkisfang til landsins en fluttu frá því á síðustu þremur mánuðum ársins.

Danmörk var helsti áfangastaður brottfluttra íslenskra ríkisborgara en þangað fluttust 100 manns á tímabilinu. Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar komu einnig frá Danmörku eða 180 manns. Næst á eftir kom Svíþjóð, þaðan sem 100 fluttust til Íslands og Noregur með 90.

Af þeim 1.200 erlendu ríkisborgurum sem fluttust frá landinu fóru flestir til Póllands eða 420 manns.

Pólland var upprunaland flestra erlendra ríkisborgara en þaðan fluttust 570 til landsins af alls 2.040 erlendum innflytjendum. Litháen kom næst, en þaðan fluttust 150 erlendir ríkisborgarar til landsins.

Í lok fjórða ársfjórðungs bjuggu 49.500 erlendir ríkisborgarar á Íslandi, eða 13,6% af heildarmannfjölda. Aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 840 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×