Fyrri fjórir leikirnir í 16-liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar í fótbolta fóru fram í kvöld.
Þýskalandsmeistarar Bayern München létu eitt mark duga gegn Darmstadt 98 á heimavelli. Það gerði Spánverjinn Xabi Alonso á 40. mínútu.
Javier „Chicharito“ Hernández var enn og aftur á skotskónum fyrir Bayer Leverkusen sem vann 1-3 sigur á Unterhaching á útivelli.
Unterhaching komst yfir á 27. mínútu en Chicharito jafnaði metin fjórum mínútum síðar með sínu 18. marki á tímabilinu. Mexíkóski framherjinn hefur verið sjóðheitur að undanförnu og skorað sex mörk í síðustu fjórum leikjum Leverkusen.
Sjá einnig: Chicharito með fimm mörkum fleira en allt United-liðið
Félagi Hernández í framlínunni, Stefan Kiessling, kom Leverkusen yfir á 55. mínútu og það var svo Karim Bellarabi sem gulltryggði sigur liðsins þegar hann skoraði þriðja mark þess sjö mínútum fyrir leikslok.
Werder Bremen vann 3-4 sigur á Borussia Mönchengladbach í miklum markaleik á útivelli.
Aron Jóhannsson er enn frá vegna meiðsla hjá Werder Bremen en það hefur lítið gengið hjá liðinu í þýsku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Þá vann B-deildarlið Heidenheim 0-2 sigur á C-deildarliði Erzegebirge Aue.
Seinni fjórir leikirnir í 16-liða úrslitunum fara fram á annað kvöld.
