Lífið

Langafi söngkonunnar Heru auglýsir húslestur í Gamla bíó

Stefán Árni Pálsson skrifar
Langafa Heru má sjá hér lengst til vinstri.
Langafa Heru má sjá hér lengst til vinstri. vísir
Í desember fer fram Húslestur í Petersen svítunni í Gamla bíó þar sem margir af fremstu ljóðskáldum, rithöfundum og tónlistarmönnum Íslendinga koma fram.

Fyrir viðburðinn var útbúið kynningarefni þar sem gömul mynd var í aðalhlutverki, sem þótti endurspegla vel þá stemningu sem verið var að sækjast eftir í þessari húslestrarröð.

Fyrir helgi átti söngkonan Hera Björk leið í Gamla bíó og kom auga á plakatið fyrir utan húsið og sagði svo í framhaldinu frá því á facebook síðu sinni að maðurinn á myndinni væri langafi hennar og langamma hennar væri þarna á myndinni að gefa afa hennar, Geir, brjóst að drekka.

„Þetta er skemmtilegt...Langafi minn hann Ásmundur við húslestur í Víðum upp úr aldamótunum 1900 og langamma hlýðir á með afa Geir á brjósti...og saman auglýsa þau húslestur í Gamla Bíó 2015...er handviss um að þau óraði ekki fyrir því þegar þessi mynd var tekin 1906,“ segir Hera á Facebook.

Næsti húslestur fer fram þriðjudagskvöldið 15. desember í Petersen svítunni og hefst kl. 20.30 með yfirskriftinni Tónar og ljóð, en þar munu koma fram Gyrðir Elíason, Svavar Knútur, Aðalsteinn Ásberg og Ása Aðalsteinsdóttir. Á undan er rauðvínskynning og fólk því hvatt til að mæta snemma og koma sér vel fyrir áður en listamenn kvöldsins hefja leik. Frítt er inn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×