Íslenski boltinn

Hetja Blika um sigurmarkið: „Rugluð tilfinning“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hinn 16 ára gamli Ágúst Eðvald Hlynsson var hetja Blika þegar hann tryggði þeim sæti í átta liða úrslitum Borgunarbikarsins með marki í framlengingu gegn ÍA. Hann hefur nú skorað tvö mörk í þeim þremur meistaraflokksleikjum sem hann á að baki.

„Þetta var rugluð tilfinning, alveg geðveikt,“ segir Ágúst í viðtali við Vísi eftir leikinn. Mark hans var afar laglegt en hann fékk boltann í þröngri stöðu í markteignum umkringdur leikmönnum en náði að snúa boltann framhjá Árna Snæ í marki Skagamanna á ótrúlegan hátt.

Pabbi Ágústs er gamla kempan Hlynur Eiríksson sem á árum áður lék með FH og Þór og þjálfaði meðal annars kvennalið Breiðabliks. Hann var unglingalandsliðsframherji áður en hann færði sig í vörnina en Ágúst segist ekki hafa fengið markanefið frá honum.

„Nei, ég lærði þetta ekki af honum, hann skoraði engin mörk,“ segir Ágúst hlæjandi en hann er viss um að hann sé í rétta liðinu til þess að þróa sína hæfileika.

„Það er frábært að spila með þessum leikmönnum. þeir styðja frábærlega við mann og hópurinn er mjög þéttur.“ Þeir þurfa þó að halda Ágústi á jörðinni en ljóst er að þar er gríðarmikið efni á ferð. Leikmenn ÍA voru mjög hrifnir af honum en blaðamaður heyrði þá ræða við Árna Snæ, markmann ÍA, hversu vel Ágúst hafi gert í því að koma boltanum í markið.

Ágúst er einnig alveg með á tæru hvert markmiðið í þessari keppni sé.

„Bikarinn er markmiðið. Vonandi förum við alla leið,“ sagði hetja kvöldsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×