Innlent

Ástráður sækir um við Landsrétt í þriðja sinn

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ástráður Haraldsson.
Ástráður Haraldsson. Vísir

Alls sóttu átta manns um embætti dómara við Landsrétt. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Meðal þeirra er Ástráður Haraldsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Þetta er í þriðja sinn sem hann sækir um stöðu dómara við réttinn.

Ástráður er einn þeirra sem metinn var hæfastur af hæfnisnefnd þegar Landsrétti var komið á fót. Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, hafði hann hins vegar ekki inni á lista yfir þá dómara sem að lokum voru settir í embætti.

Ástráði voru þá dæmdar 700 þúsund krónur í miskabætur þegar Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hefði brotið lög með því að endurraða lista yfir hæfustu umsækjendur.

Ástráður sótti síðan aftur um stöðu dómara við réttinn í maí á síðasta ári, þegar Vilhjálmur H. Vilhjálmsson sagði starfi sínu lausu. Eiríkur Jónsson var í það skiptið ráðinn í embættið.

Dómsmálaráðuneytið auglýsti þann 20. desember laus til setningar tvö embætti dómara við réttinn. Umsóknarfrestur rann út 6. janúar síðastliðinn.

Sett verður í embættin eftir að dómnefnd um hæfni umsækjenda hefur lokið störfum sínum í tengslum við setningu í embættin.

Eftirfarandi sóttu um embættin:

Ása Ólafsdóttir, prófessor

Ástráður Haraldsson, héraðsdómari

Björn L. Bergsson, skrifstofustjóri Landsréttar

Bogi Hjálmtýsson, héraðsdómari

Hildur Briem, héraðsdómari

Ingibjörg Þorsteinsdóttir, héraðsdómari

Ragnheiður Snorradóttir, héraðsdómari

Sandra Baldvinsdóttir, héraðsdómari




Fleiri fréttir

Sjá meira


×