Innlent

Flug liggur niðri og vegum víða lokað

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Engar flugvélar hafa farið um Reykjavíkurflugvöll í morgun.
Engar flugvélar hafa farið um Reykjavíkurflugvöll í morgun. Vísir/Vilhelm

Nær allt flug liggur nú niðri á landinu, bæði innanlands- og millilandaflug, vegna veðurs. Vetrarfærð er á mestöllu landinu og víða hefur vegum verið lokað. Gular og appelsínugular viðvaranir eru í gildi víða á landinu í dag.

Sjá einnig: Lægðaganginum „hvergi nærri lokið“

Á vef Isavia kemur fram að Icelandair hafi aflýst nær öllu flugi sínu til og frá Keflavíkur í morgun vegna veður. Þá hefur flugferðum annarra flugfélaga sem fara áttu um flugvöllinn fyrir hádegi verið seinkað þar til síðdegis.

Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia segir í samtali við fréttastofu að sex vélar Icelandair, fimm frá Bandaríkjunum og ein frá Kanada, hafi þó náð að lenda á vellinum um sjöleytið í morgun þegar opnaðist gluggi í veðrinu. Farþegum var ýmist komið frá borði með landgöngum eða stigabílum.

Áætlað er að flugvélar Icelandair, sem áttu að taka á loft í morgun, fari af stað um klukkan 11:30 og vélar byrja jafnframt að lenda á vellinum um svipað leyti. Fylgjast má með áætlun flugfélaganna á Keflavíkurflugvelli á vef Isavia.

Þá hefur öllu flugi Air Iceland Connect til og frá Reykjavíkurflugvelli verið frestað í morgun og flugferðum til og frá Ísafirði aflýst. Veður verður einna verst á Vestfjörðum í dag. Á vef flugfélagsins segir að næstu upplýsinga um flugferðir sé að vænta klukkan 12:30.

Víða ýmist ófært eða lokað

Vetrarfærð er um mest allt land og sumstaðar vonskuveður. Vegir eru víða ýmist ófærir eða lokaðir. Á Hellisheiði, Reykjanesbraut og í Þrengslum er hálka og éljagangur en vegirnir eru þó enn opnir.

Þá eru flestar leiðir ófærar eða þungfærar á Snæfellsnesi. Lokað er um Brattabrekku og Holtavörðuheiði. Á Vestfjörðum er einnig ófært víða en lokað er um Súgandafjörð, Mikladal, Hálfdán og Súðavíkurhlíð.

Þá er lokað um Vatnsskarð, Þverárfjall, Siglufjarðarveg, Öxnadalsheiði og Ólafsfjarðarmúla.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×