Körfubolti

Jón Arnór: Annað hvort elskaru hann eða hatar og ég er einn af þeim sem dýrka hann

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jón Arnór og Pavel í leik saman á síðustu leiktíð.
Jón Arnór og Pavel í leik saman á síðustu leiktíð. vísir/bára

Jón Arnór Stefánsson ber Pavel Ermolinskij vel söguna en Pavel var einn þeirra sem komust í fimm manna úrvalslið Jóns Arnórs sem hann hefur leikið með í gegnum magnaðan feril.

Jón Arnór var gestur í Sportinu í kvöld sem var sýnt í gærkvöldi og þar valdi hann fimm manna úrvalslið sitt, með þeim leikmönnum sem hann hefur spilað með.

„Okkar besti Pavel. Hann getur verið hundleiðinlegur og erfiður. Það er stundum erfitt að vera með honum í liði og svona. Það er eitthvað sem margir þekkja en það er því hann er ákveðinn týpa. Hann er rólegur og minglar ekkert við hvern sem er,“ sagði Jón Arnór.

„Hann á erfitt með að treysta fólki en hann er stórkostlegur vinur minn og einn af mínum bestu vinum. Hann er frábær liðsmaður og bakvið þennan hjúp er þetta gull af manni og vinur vina sinna.“

„Þeir sem þekkja hann vel elska hann. Annað hvort elskaru hann eða hatar hann en ég er einn af þessum sem dýrka hann og auðvitað ef við tölum um hann sem körfuboltamenn er hann algjört „general“ á gólfinu. Þvílíkur leikstjórnandi með leikskilning á allt öðru leveli en við sjáum hérna á Íslandi.“

Pavel gekk til liðs við Val síðasta sumar og Jón Arnór segir að hann hafi reynt að lokka hann með sér.

„Já. Hann var í því. Það er alveg satt,“ sagði þessi magnaði körfuboltamaður.

Klippa: Sportið í kvöld - Jón Arnór um Pavel

Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×