Erlent

Viðurkennir að hafa vitað af greiðslunum til kvennanna

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist ekki hafa vitað af greiðslunum fyrr en seinna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist ekki hafa vitað af greiðslunum fyrr en seinna. Vísir/AP
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, sagði í einkaviðtali hjá Fox News að hann hafi vitað að Michael Cohen, fyrrverandi lögfræðingur sinn, hefði greitt tveimur konum fyrir að þegja um samband sitt en tekur fram að hann hafi komist að því eftir að búið var að ganga frá samkomulaginu.

„Ég komst að þessu síðar meir,“ segir Trump. Hann segir að það sé algjört lykilatriði að peningurinn hafi ekki komið úr kosningasjóði hans og því hafi ekki verið um að ræða brot á kosningalögum af hans hálfu.

Í gær játaði Michael Cohen að vera sekur um umfangsmikil skatt-og fjársvik og brot á kosningalögum. Hann hafi greitt Stormy Daniels og Karen McDougal samtals 280 þúsund bandaríkjadali til að þagga niður í þeim því hann hefði talið að frásagnir þeirra myndu hafa áhrif á forsetakosningarnar árið 2016.

Vitnisburður Cohens frá því í gær stangast á við þau orð sem Trump lét falla í viðtali hjá Fox News því Cohen var ómyrkur í máli þegar hann sagði Trump hafa fyrirskipað þagnargreiðslurnar.

Trump segir að sín fyrstu viðbrögð, þegar Cohen á að hafa sagt honum frá greiðslunum, hafi verið að spyrja hvort greiðslurnar hafi komið úr kosningasjóði. Það hafi verið léttir þegar hann hafi komist að því að svo hefði ekki verið.

„Þetta er ekki einu sinni brot á kosningalögum,“ segir Trump.

Hann segist ekki hafa neitt að fela því hann hefði „tístað“ um fyrirkomulagið í byrjun maí. Í stöðuuppfærslum á Twitter skrifaði hann að slíkt fyrirkomulag væri algengt á meðal þeirra sem frægir væru og ríkir.

„Samkomulagið var gert til þess að koma í veg fyrir rangar ásakanir hennar [Stormy Daniels] um ástarsamband“.


Tengdar fréttir

Michael Cohen bendlar Trump við fjármálamisferli

Í dómsal svaraði hann fyrir ákæruatriðin og samdi um lyktir málsins en Cohen segist hafa farið að fyrirskipunum umbjóðanda síns sem þá hafi verið frambjóðandi til forseta Bandaríkjanna.

Ólíklegt að eldfimur vitnisburður Cohen breytti miklu

Þrátt fyrir að vitnisburður fyrrverandi lögfræðings Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, muni koma forsetanum illa er ólíklegt að mikið breytist í bandarískum stjórnvöldum á meðan Trump nýtur stuðnings þingmanna Repúblikanaflokksins að mati lektors í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Cohen játar sök

Michael Cohen, sem um langt skeið var lögfræðingur Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta, hefur játað að vera sekur um umfangsmikil fjár-og skattsvik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×