Stella Thors hefur hafið störf á ráðgjafarsviði KPMG. Hún hefur starfað hjá Fjármálaeftirlitinu síðustu ár.
Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að Stella sé með BS próf í tölvunarfræði frá HR og búi yfir 14 ára reynslu af upplýsingatæknigeiranum og fjármálamarkaðinum.
„Stella starfaði á árunum 2007 til 2011 sem fagstjóri yfir prófunum og gæðamálum í þróun hjá Teris en Teris sameinaðist Reiknistofu bankanna í byrjun árs 2012.
Frá árinu 2011 til ársloka 2018 starfaði Stella sem sérfræðingur í áhættugreiningu í upplýsingatækni hjá Fjármálaeftirlitinu. Meðal þeirra verkefna sem hún sinnti hjá eftirlitinu var útgáfa á leiðbeinandi tilmælum um upplýsingakerfi eftirlitsskyldra aðila, úttektir, rannsóknir auk aðkoma að málefnum sem tengdust upplýsingatækniáhættu fjármálafyrirtækja.
Í starfi á ráðgjafarsviði KPMG mun Stella leggja megináherslu á ráðgjöf tengda áhættustýringu- og stjórnarhætti upplýsingatæknimála með sérstaka áherslu á eftirlitsskyld félög,“ segir í tilkynningunni.
