Fótbolti

Ronaldo vonast til að spila aftur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ronaldo á hækjunum í dag.
Ronaldo á hækjunum í dag. Nordic Photos / AFP

Brasilíumaðurinn Ronaldo segir að ferli sínum sé ekki lokið en hann gekkst undir aðgerð vegna alvarlegra meiðsla á hné nýverið.

Þetta sagði hann á blaðamannafundi í París þar sem aðgerðin var gerð. Hann verður frá vegna meiðslanna í minnst níu mánuði.

„Ég hef ekki ákveðið enn hvað ég ætla að gera en ég er tilbúinn í hvað sem er," sagði hann. „Mig langar til að halda áfram að spila ef ég hlusta á hjarta mitt. En líkaminn hefur verið að senda mér þau skilaboð að hann sé að þreytast og þurfi á hvíld að halda."

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann verður fyrir alvarlegum hnémeiðslum en margir óttast að hann eigi ekki afturkvæmt eftir þetta.

„Ég veit að bataferlið verður mjög erfitt fyrir líkama og sál. En ef ég jafna mig og næ að spila aftur er það allt gott og blessað. Ef ekki þarf verður það mjög erfið ákvörðun en niðurstaðan engu að síður."

Læknirinn sem framkvæmdi aðgerðina sagði að Ronaldo gæti ekki hlaupið næstu fimm mánuðina og gæti ekki æft í níu mánuði. Hann sagði þó að það gæti margt gerst á næstu þremur mánuðum og að endurkoma hans færi eftir því hversu vel gengi í endurhæfingu hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×