Innlent

Fólki með heilaskaða og utanveltu í kerfinu gefin von

Heimir Már Pétursson skrifar

Heilabrot, endurhæfingarsetur fyrir fólk með framheilaskaða, kynnti í dag nýtt úrræði til endurhæfingar. Hegðunarvandi er algengt vandamál eftir heilaskaða og getur birst sem óviðeigandi hegðun, skortur á framtakssemi, mótþrói, sjálfskaðandi hegðun og jafnvel ofbeldi.

Hegðunarvandi getur tafið endurhæfingu og kemur í veg fyrir endurkomu fólks í samfélagið. Fram til þessa hefur ekkert meðferðarúrræði verið í boði fyrir fólk í þessari stöðu hér á landi en það hefur verið þekkt árum saman í útlöndum. En nú hefur íslenskur sérfræðingur í Kanada, Karl Fannar Gunnarsson yfirmaður atferlistengdrar taugaendurhæfingar við West Park Healthcare Centre í Toronto, tekið að sér að stýra endurhæfingu þessa hóps.

„Hún felst í því að hjálpa einstaklingnum að komast aftur út í lífið eftir heilaskaða. Þá sér í lagi þá einstaklinga sem sýna af sér hegðunarvanda sem er að valda þeim vandræðum og stoppa þá í að fá meðferð annars staðar og í það að geta lifað út í samfélaginu,” segir Karl Fannar.

Á kynningarfundinum í dag var því lýst hvernig fólk sem orðið hefur fyrir framheilaskaða dettur niður um glufur kerfisins og því endi það oft á aðstandendum að glíma við vandann og oft lendi þetta fólk á götunni þar sem það sé berskjaldað. Þá sé því stundum gefin geðlyf sem jafnvel auki á vandann.

„Nýgengni hér á Íslandi er þannig að það er á milli eitt þúsund og fimmtán hundruð manns árlega sem verða fyrir heilaáverkum. Af þeim eru sirka tvö hundruð til þrjú hundruð og fimmtíu sem fá langvarandi fatlanir. Og á milli tíu til tuttugu manns verða fyrir því að sýna af sér hættulega hegðun eða hegðunarvanda sem þá kemur þeim í mikil vandræði félagslega og innan kerfisins,” segir Karl Fannar Gunnarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×