Innlent

Hátt í þúsund manns misstu vinnuna í fimm­tán hóp­upp­sögnum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifa
Unnur Sverrisdóttir er forstjóri Vinnumálastofnunar.
Unnur Sverrisdóttir er forstjóri Vinnumálastofnunar. Vísir/Egill

Alls misstu á bilinu 700 til 800 manns vinnuna í dag í fimmtán hópuppsögnum. Þetta sagði Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, í viðtali í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Stærsta hópuppsögn Íslandssögunnar var í gær þegar Icelandair sagði upp rúmlega 2000 manns en enn á eftir að tilkynna þá uppsögn formlega til Vinnumálastofnunar.

Að sögn Unnar man hún ekki eftir öðrum eins fjölda hópuppsagna á einum degi og komu inn í dag. Flestar uppsagnirnar eru hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu.

Síðasti dagur mánaðarins er á morgun og segist Unnur frekar eiga von á því að fleiri uppsagnir bætist þá við.

Nú þegar eru alls um 50.000 manns á atvinnuleysisbótum eða hlutaatvinnuleysisbótum og gríðarlegt álag á starfsfólki Vinnumálastofnunar.

Aðspurð segir Unnur ekki víst að það náist að greiða bætur til allra í tæka tíð nú um mánaðamótin en stofnunin sé nú þegar byrjuð að greiða út.

„En það er gríðarlegt álag og við gerum okkar allra, allra besta,“ segir Unnur.


Tengdar fréttir

Segja öllum upp og vonast eftir kraftaverki í sumar

Öllum sextíu starfsmönnum Hótel Sögu í Vesturbænum í Reykjavík var sagt upp í dag. Eitt prósent nýting var á hótelinu í apríl. Hótelstjórinn vonast eftir kraftaverki í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×