Innlent

Þurfti að bíða í sólarhring eftir að vera lagður inn

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Maður, sem hefur verið hjartveikur í sextán ár og þurft að nýta sér þjónustu Landspítala reglulega í þann tíma, segir ástandið á spítalanum hafa farið hratt versnandi undanfarin ár og aldrei verið jafn slæmt og nú. Í vikunni þurfti hann að bíða í sólarhring á bráðamóttöku eftir að vera lagður inn á hjartadeild.

Sigurður Jóhansson hefur verið inn og út af Landspítalanum undanfarin ár en hann er með erfiða hjartabilun. Hann segir ástandið á spítalanum ekki gott.

„Að mínu mati er það skelfilegt. Aðstaðan er bara alveg vonlaus hérna. Ég er búinn að eiga við hjartabilun í mögr ár og mér finnst þetta alltaf fara versnandi,“ segir Sigurður. 

Sigurður leitaði fyrir nokkrum dögum á bráðamóttöku vegna verkja í brjósti og þurfti að bíða í sólarhring eftir að vera lagður inn, þó að fólki væri ljóst að hann hefði margsinnis verið lagður inn vegna veikinda sinna. 

„Ég var í sólarhring þar. Ef ég hefði haft kraft, þá hefði ég labbað út. En ég hafði ekki kraft til þess. Þegar ég kom hingað á hjartadeild þá var bara fólk á göngum en ég var svo heppinn að lenda inni á herbergi, en ég hef þurft að vera á ganginum,“ segir hann.

Sigurður segir reynslu sína af spítalanum hafa verið allt aðra fyrir nokkrum árum en að ástandið fari sífellt versnandi. Hann segist til að mynda í fyrsta sinn hafa upplifað sig óöruggann innan veggja spítalans á bráðamóttöku í vikunni.

„Ég fann fyrir miklu óöryggi og það var mjög óþægilegt,“ segir Sigurður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×