Innlent

Búist við að létti í dag

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Lognið á undan storminum, því fárviðri er spáð á morgun.
Lognið á undan storminum, því fárviðri er spáð á morgun. vísir/vilhelm
Búist er við hægri minnkandi norðanátt og éljum í dag og að létti til, fyrst vestanlands. Hins vegar gengur í austan ofsaveður um allt land á morgun, sums staðar jafnvel fárviðri, einkum seinni partinn og um kvöldið.

Enn er ófært víða og er Suðurstrandarvegur enn lokaður. Hálkublettir eru á Reykjanesbraut og á höfuðborgarsvæðinu. Hálka er á Hellisheiði, Sandskeiði og í Þrengslum. Eins er hálka á Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði og uppi í sveitum Árnessýslu. Á Suðurlandi er víða talsverður snjór á vegum – þæfingur, þungfært eða jafnvel ófært almennri umferð.

Snjóþekja og hálka er á vegum á Vesturlandi. Snjóþekja er á Holtavörðuheiði en ekki er vitað um færð í uppsveitum Borgarfjarðar eins og er.  Ófært er á Útnesvegi.

Þá er enn ófært á langleiðum á norðanverðum Vestfjörðum en fært á milli flestra þéttbýliskjarna. Snjóþekja er á Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði. Á sunnanverðum Vestfjörðum er hálka frá Bíldudal í Brjánslæk. Þæfingur og hálka með ströndinni í Búðardal.

Á Norðurlandi vestra er hálka en þæfingur er frá Hofsós í Ketilás og mokstur er hafin þaðan í Siglufjörð.

Á Norðausturlandi er snjóþekja og hálka en ófært er á Víkurskarði, Ljósavatnsskarði og á Mývatnsöræfum en mokstur er hafin. Ófært er á Hálsum, Hófaskarði og á Sandvíkurheiði. Þungfært er frá Þórshöfn í Bakkafjörð.

Á Austurlandi er mokstur hafin á öllum helstu leiðum, ófært er en víða eins og t.d. á Möðrudalsöræfum, Fjarðarheiði og Fagradal. Snjóþekja er á Vopnafjarðarheiði.

Hálka er með suðausturströndinni í Vík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×