Innlent

Flugvöllum lokað í hvassviðri

Aftakaveður olli miklu tjóni um allt land í gær. Millilanda- og innanlandsflug lá niðri fram eftir degi og má búast við seinkunum á millilandaflugi í dag. Þrjú skip slitu landfestar, tvö í Hafnarfirði og eitt á Skagaströnd. Rúður brotnuðu í bílum í grjótfoki á Möðrudalsöræfum. Ekki er vitað til þess að nein teljandi slys hafi orðið á fólki.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu náðu vindhviðurnar allt að fjörutíu metrum á sekúndu við Snæfellsnes og á Grundarfirði og slöguðu upp í þrjátíu metra á sekúndu víðs vegar um landið. Hringveginum var lokað um nokkra stund við Blönduós vegna ofsaveðurs.

„Þessi lægð er búin að vera í spánum í allmarga daga og það er strax á miðvikudag sem maður fór að sjá að það yrðu einhver tíðindi um helgina,“ segir Sigurður Þ. Ragnarsson, veðurfræðingur á NFS. „Sem betur fer hefur veðrinu slotað en þetta er atburður sem maður setur í bækurnar.“

Að sögn Ólafar Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar, höfðu björgunarsveitarmenn sinnt hátt í tvö hundruð útköllum um hádegisbil í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×