Sport

Haye: Klitschko bræður vita að ég er tilbúinn að mæta þeim

Ómar Þorgeirsson skrifar
David Haye.
David Haye. Nordic photos/Getty images

Breski hnefaleikakappinn David Haye skaut föstum skotum á bræðurna Wladimir og Vitali Klitschko í samtali við Sky Sports fréttastofuna en Haye varð að fresta fyrirhuguðum bardaga sínum við yngri bróðurinn Wladimir sem fara átti fram 20. júní vegna bakmeiðsla.

Wladimir og hans menn sættu sig hins vegar ekki við að fresta bardaganum um tvær til þrjár vikur og ætla að mæta Ruslan Chagaev í staðinn. Raunar er Wladimir uppbókaður í bardögum langt fram á næsta ár og Haye gæti því þurft að bíða lengi og er augljóslega ekki sáttur með það.

„Ég vill berjast við þá bestu og stærstu og ef bardaginn við Wladimir átti að vera jafn stór og talað var um þá sé ég ekki að það ætti að breytast mikið þó svo að honum yrði frestað um nokkrar vikur. Ég vona alla vega að hann sé tilbúinn að mæta mér um leið og það er mögulegt," segir Haye.

Adam Booth, þjálfari Haye, lét hafa eftir sér að hann væri sannfærður um að Haye myndi standa sig vel gegn Wladimir.

„Eftir því sem á leið á undirbúning okkar þá sannfærðist ég meira og meira um að Haye er versta martröð Wladimir," segir Booth.

Upphaflega átti Haye að mæta Vitali en síðan var bardaginn við Wladimir staðfestur en nú eru sögusagnir á kreiki um að Haye ætli að snúa sér aftur að Vitali. Booth gat þó ekki staðfest neitt í þeim efnum.





Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×