Innlent

Nýtt frumvarp breytir skattbyrði álversins í Straumsvík

Álverið í Straumsvík greiðir sömu skatta og önnur fyrirtæki hér á landi, nái nýtt frumvarp ríkisstjórnarinnar fram að ganga. Álverið greiðir þá tæplega helmingi minna í skatta til ríkisins en nær tvöfalt meira til Hafnarfjarðarbæjar.

Frá og með gildistöku laganna ber Álverinu í Straumsvík að greiða tekjuskatt og önnur opinber gjöld sem almennt eru lögð á hér á landi samkvæmt íslenskum skattalögum. Sérsamningur hefur gilt um Álverið og hefur það óskað eftir skattalagabreytingu frá árinu 2003.

Núna greiðir Álverið í Straumsvík 33 % í tekjuskatt til ríkisins af hagnaði á ári en engin fasteignagjöld til Hafnarfjarðarbæjar. Bærinn fékk hins vegar tekjur af álframleiðslunni fyrir hvert framleitt tonn. Eftir að lögin taka gildi greiðir álverið 18 % í tekjuskatt til ríkisins og fasteignagjöld til sveitarfélagsins eins og önnur fyrirtæki.

Hafnarfjarðarbær hefur fengið um 100 milljónir á ári frá álverinu en fær rúmlega 200 milljónir á ári eftir gildistöku laganna. Bærinn fær því meira í sinn vasa með fasteignagjöldum en með framleiðslugjöldunum sem hann hefur fengið hingað til. Samningur milli ríkisins og álversins yrði afturvirkur og tæki gildi frá og með 1.janúar 2005.

Hafnarfjarðarbær fengi því endurgreitt tvö ár aftur í tímann en ekki þrjú ár eins og hann gerði kröfu um. Ríkið og Hafnarfjarðarbær hafa deilt um frá hvaða tíma skattgreiðslur álversins ættu að taka gildi en álverið og Hafnarfjarðarbær vildu að skattgreiðslurnar tækju gildi frá ársbyrjun 2004 en ekki 2005. Frumvarpið verður lagt fyrir Alþingi á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×